Spurt og svarað

Gæti laseraðgerð hentað mér?

Sjónlagsaðgerð gæti hentað þér ef þú uppfyllir eftirtalin atriði:

  • Ert orðin(n) tvítug(ur).
  • Hefur haft stöðuga sjón síðustu 24 mánuði.
  • Ert almennt við góða heilsu.
  • Hefur ekki augnsjúkdóma sem hindra möguleika á aðgerð.
  • Hefur raunhæfar væntingar.

Hvað er LASIK?

LASIK er aðgerð sem nota má til leiðréttingar á sjónlagsgöllum s.s. nærsýni, fjarsýni og sjónskekkju. LASIK er algengasta sjónlags- aðgerðin sem gerð er. Lasikaðgerðir lækna ekki ellifjarsýni en í ákveðnum tilfellum er þó hægt að hjálpa fólki með ellifjarsýni með því að framkvæma svokallaða skiptisjón en þá er annað augað sniðið að því að sjá vel í fjarska en hitt sniðið að því að sjá vel nærri sér.

Eru LASIK aðgerðir nýtilkomnar?

Lasersjón hefur gert LASIK aðgerðir frá árinu 2000. Aðgerðin á sér lengri forsögu og þess má geta að augnlæknar hafa verið að reyna að móta hornhimnuna í meira en hálfa öld.

Hverjir eru helstu kostir við LASIK aðgerð?

LASIK er algengasta sjónlagsaðgerðin sem gerð er. Helstu kostir hennar umfram aðrar aðgerðir eru:

  • Sárið grær fljótt.
  • Sjónin er orðin tiltölulega skörp eftir nokkra daga.
  • Þörf er á færri eftirskoðunum.
  • Sjónskerpan er oftast orðin varanleg eftir nokkrar vikur.

Er áhættusamt að fara í LASIK aðgerð?

LASIK er flókin aðgerð og kostnaðarsöm. Fylgikvillar geta komið upp í aðgerðinni og í kjölfar þeirra vandamál sem gera aðra aðgerð nauðsynlega. Þetta gerist þó sjaldan og hefur afar sjaldan í för með sér varanlega sjónskerðingu. Einnig getur verið þörf á endurmeðferð til að ná settu marki. Áhættan við aðgerðina er í lágmarki og með nýjustu tækjunum er aðeins 1-2% hætta á fylgikvillum og jafnvel í þeim tilfellum eru sárafáir sem hljóta varanlegan skaða af eftir að frekari meðferð hefur farið fram. Þó er rétt að taka áhættuna alvarlega og íhuga aðgerðina vandlega samanborið við þau óþægindi og áhættu sem stafar af gleraugna- eða snertilinsunotkun.

Hvaða væntingar get ég gert til aðgerðarinnar?

Eftir aðgerð sjá 95-98% aðgerðaraugna nægilega vel án gleraugna til daglegra athafna. Það er ekki óraunhæft að vænta þess að sjónskerpan verði 1,0 eftir aðgerðina. Óháð aðgerðinni hafa allir einstaklingar einhvern lítinn sjónlagsgalla sem ekki þarf að leiðrétta með gleraugum. Flestir ná sjónskerpu nálægt 1,0 eftir aðgerðina en hjá sumum getur frávikið orðið þannig að hana þurfi að endurtaka eða leiðrétta með gleraugum.

Hverjir eru helstu eftirkvillarnir?

Fyrstu mánuðina, stöku sinnum í ár eða lengur, kvarta sumir um tímabundin óþægindi, þurrk eða stingi í auganu. Þetta stafar af því að taugaþræðirnir sem skaddast við aðgerðina eru að vaxa aftur og eru þá viðkvæmir. Mörgum líður betur að nota táradropa meðan þetta gengur yfir.

Hverjir hafa helst hag af LASIK aðgerð?

LASIK aðgerð getur hjálpað fjölmörgum sem eru nærsýnir, fjarsýnir eða með sjónskekkju. Áhugasamir ættu þó að bera sterkan vilja til að vera minna háðir gleraugum eða linsum og tilbúnir að taka þá áhættu sem slík aðgerð ber með sér þó lítil sé.

Hverjir geta ekki farið í LASIK aðgerð?

Það eru fjölmargir þættir sem læknar þurfa að meta áður en niðurstaða liggur fyrir um hvort einstaklingur getur gengist undir LASIK aðgerð. Almennt geta þó einstaklingar yngri en 20 ára ekki farið í slíka aðgerð, né þeir sem sjónin er enn að breytast hjá. Einstaklingar með hornhimnusjúkdóm eru ekki ákjósanlegir kandídatar fyrir slíka aðgerð. Þeir sem eru með sykursýki á háu stigi, svæsna hvarmabólgu eða hafa alvarlegt ofnæmi í augum geta stundum ekki farið í aðgerð, en ekki er hægt að útiloka neitt fyrr en eftir forskoðun.

Ég er ánægður með linsurnar mínar. Á ég að hugsa um LASIK aðgerð?

Flestir sérfræðingar eru sammála um að ef viðkomandi er ánægður með linsur þá ætti sá hinn sami að skoða vel kosti og galla aðgerðarinnar.

Hvaða árangurs má vænta?

Áhrif aðgerðarinnar eru varanleg. Þau ganga ekki til baka með tímanum. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að augun geta breyst. Ráðlagt er að aðgerðin sé ekki gerð meðan sjónin er enn að breytast. LASIK aðgerð er t.d. ekki heppileg fyrir börn því augu þeirra eiga eftir að stækka og breytast. Eftir 18 ára aldur er hægt að vænta langtíma leiðréttingar þó það sé ekki algilt. Þú skalt því ræða vel við augnlækninn svo hann geti betur áttað sig á þeim breytingum sem þegar hafa orðið og þannig aðstoðað þig við þá ákvörðun hvort rétt sé að bíða með aðgerð eða ekki. Þó útkoman sé endanleg er hægt að fínpússa hana ef þörf krefur.

Augljóst er að þeir sem eru með mikla nærsýni, fjarsýni eða sjónskekkju eru erfiðaðri tilfelli en þeir sem eru með vægari sjónlagsgalla, en oft næst þó hlutfallslega mun meiri árangur með slík tilvik.