Um okkur

LaserSjón ehf. sérhæfir sig í lasermeðferð á hornhimnu augans til að laga sjónlagsgalla. LaserSjón er frumkvöðull í sjónlagsaðgerðum á Íslandi og hefur á að skipa reyndustu sérfræðingum á sínu sviði hér á landi. Fyrirtækið er búið háþróuðum tækjabúnaði til sjónlagsaðgerða og meðferða. Tæki LaserSjónar eru af svonefndri fjórðu kynslóð lasiktækja.

Sérfræðingar LaserSjónar, þeir Þórður Sverrisson, Eiríkur I. Þorgeirsson og Keith Warren Fogg hafa gert sjónlagsaðgerðir á rúmlega 6 þúsund manns og þar af leiðandi um tólf þúsund augum. LaserSjón er í dag ein af stærri Lasik aðgerðastöðvum á Norðurlöndunum og hafa læknar fyrirtækisins því skipað sér sess á meðal reyndari manna í röð kollega sinna á Norðurlöndum.

Lasikaðgerð er algengasta sjónlagsaðgerð í heiminum í dag og eru gerðar milljónir aðgerða á ári hverju. Lasikaðgerð hentar þeim sem ekki vilja vera háðir gleraugum eða linsum í leik og starfi og þeim sem ekki geta notað linsur vegna óþæginda eða ofnæmis. Þá henta Lasikaðgerðir einstaklega vel einstaklingum í störfum og með áhugamál þar sem linsur eða gleraugu há verulega eða hindra árangur.

Í nýlegum samanburði á Laseraðgerðatækjum sem bandaríska heilbrigðis-og lyfjaeftirlitsstofnunin (FDA) stóð fyrir, reyndist sú tegund Bausch og Lomb tækja sem LaserSjón notar skila bestum árangri. Niðurstöðurnar sýna að 87,3% fengu fulla sjónskerpu, 12,4% fengu verulega bætta sjónskerpu, en aðeins 0,3% náðu ekki tilætluðum árangri.

Stofnendur fyrirtækisins þeir Eiríkur og Þórður hafa samanlagt áratuga reynslu á sviði augnlækninga og eru auk þess reyndustu sérfræðingar á Íslandi í Lasikaðgerðum. Auk þeirra Eiríks, Þórðar og Keith starfa hjá LaserSjón, 2 hjúkrunarfræðingar og ritari í móttöku. Fimm af lykilstarfsmönnum LaserSjónar hafa farið í aðgerð með frábærum árangri.

Bausch og Lomb tækin sem við notum eru, vegna hins gríðarlega góða árangurs sem náðst hefur með þeim, með útbreiddustu tækjum í heiminum. Í dag eru þau notuð af mjög mörgum virtum og stórum fyrirtækjum á þessu sviði um allan heim þar sem starfa þekktir og heimsfrægir augnlæknar á sviði sjónlagsaðgerða.

Það að LaserSjón hafi valið þessi tæki sem koma afar vel út úr könnunum staðfestir að við kappkostum að vera ætíð með það besta sem til er í heiminum á hverjum tíma til að fást við augun þín. Við fylgjumst einnig vel með allri þróun á þessu sviði og sérfræðingar okkar sækja ráðstefnur erlendis á hverju ári þar sem nýjasta tækni, tæki og aðferðir eru kynntar. Það er mat okkar að með þessu standi LaserSjón í fremstu röð fyrirtækja á sínu sviði í heiminum í dag.

Við vitum að það ræður úrslitum um þann árangur sem við náum að okkur takist sem best til í hverju einstöku tilviki. Þess vegna er hvert tilvik fyrir okkur einstakt þar sem sérfræðingar LaserSjónar gerast sérfræðingar í augunum þínum.