GBP = 156 ISK
 
 

Öryggisatriði

Augun þín eru eitt það mikilvægasta sem þú átt og öryggi við hvers kyns augnaðgerðir skiptir þig því gríðarlega miklu máli. Mannsaugað er einn af viðkvæmari líkamshlutum okkar. Margir búa hinsvegar ekki við þann kost að hafa bestu sjón án hjálpartækja og þjást af nærsýni, fjarsýni, sjónskekkju og hugsanlega af öðrum sjónlagsgöllum.

Okkur er ljóst að öryggi aðgerða skiptir þig öllu máli. Það er því mikilvægt að þú hafir kynnt þér aðgerðina vel áður en þú ferð í hana. Við leggjum mikla áherslu á það í forskoðun að fara með þér í gegn um kosti og hugsanlega áhættu þess að fara í aðgerð. Veigamikill þáttur í þessu mati er ýtarleg augnskoðun fyrir aðgerð sem við köllum forskoðun.

Í forskoðuninni færð þú afhentar upplýsingar er varða ákvörðun þína um að fara í aðgerð. Mikilvægt er að þú kynnir þér þessi gögn afar vel því að þau varða meðal annars réttarstöðu þína og tryggingarmál. Með því að ýta hér getur þú séð þessi gögn.

Mikilvægt er að þú fylgir öllum þeim ráðum sem læknar okkar gefa þér bæði fyrir aðgerðina, í aðgerðinni og eftir aðgerðina. Sérstaklega er mikilvægt að þú sért þér meðvituð(aður) um hvað þú mátt gera eftir aðgerð.

Þá fylgjumst við náið með augunum þínum með reglulegum eftirskoðunum í sex mánuði eftir aðgerð eða lengur ef þörf er á, alveg þar til við teljum að endanlegum árangri sé náð.

Engin skurðaðgerð er algerlega án áhættu en reynslan sýnir að vandamál í kjölfar Lasik, Lasek/PRK og Zyoptix aðgerða eru sjaldgæf og fá slík tilfelli hafa komið upp hjá LaserSjón.

Helstu vandamál sem kunna að koma upp í kjölfar aðgerðar eru:

  • Einn alvarlegasti fylgikvilli allra augnaðgerða er sýkingarhætta, en hún er þó mun óalgengari eftir Laser-aðgerð en flestar aðrar aðgerðir. Með því að nota augndropa sem innihalda sýklalyf drögum við verulega úr áhættunni á augnsýkingu eftir aðgerð.
  • Í um það bil 5 til 10 % tilfella þarf tvær lasermeðferðir til að ná tilætluðum árangri. Þá er ekki hægt að lofa því að viðkomandi losni algjörlega við gleraugun eða linsurnar þó það sé oftast tilfellið.
  • Fyrir kemur, þegar annað augað er meðhöndlað en ekki hitt, að samhæfing augnanna raskast svolítið. Þetta er hinsvegar yfirleitt alltaf hægt að laga en fyrir kemur að meðhöndla þarf hitt augað til að ná fyrri samhæfingu.
  • Ef leiðbeiningum er ekki fylgt eftir lasikaðgerð, kemur fyrir að flipinn losnar frá, en með þeirri tækni sem við notum tekst yfirleitt alltaf að laga slík tilfelli.
  • Fyrir kemur að fólk verður vart við geislabaug og ljósbrot í kringum sterkt ljós og stundum minnkar sjónskerpa í rökkri eftir laseraðgerðir.
  • Augnþurrkur er einn algengasti tímabundni fylgikvilli laseraðgerða en það má laga með gervitárum. Slík gervitár fást án lyfseðlis í apótekum. Í lang flestum tilvikum hverfur augnþurrkurinn innan nokkurra vikna og er oftast lítið vandamál.
  • Fólk um fertugt og eldra sem ekki notar lesgleraugu fyrir aðgerð kann að þurfa á lesgleraugum að halda eftir aðgerð.

Við hjá LaserSjón leggjum gríðarlega áherslu á að fyllsta öryggis sé gætt í öllum undirbúningi og undirbúningsferlinu, sem og við framkvæmd aðgerða.