Laseraðgerðir

Um nokkur afbrigði er að ræða varðandi laseraðgerðir á augum. LaserSjón býður upp á þær allar, en þær eru: Lasik aðgerð, Lasek/PRK aðgerð, Zyoptix aðgerð. Hér á eftir er fjallað nánar um hverja aðgerð.

LASIK aðgerð

LASIK er algengasta sjónlagsaðgerðin sem gerð er en hún er einkum notuð til leiðréttinga á sjónlagsgöllum s.s. nærsýni, fjarsýni og sjónskekkju.

Hvað merkir LASIK?

LASIK er stytting á Laser-in-situ-keratomileusis eða Laser-assisted-in-situ-keratomileusis. Notaður er lasergeisli til að breyta lögun hornhimnunnar án þess að hróflað sé við aðliggjandi vefjum.

  • In-situ = Á náttúrulegum/eðlilegum stað.
  • Kerato = Hornhimna.
  • mileusis = Að móta.

LASIK aðgerðir hafa verið gerðar erlendis í u.þ.b. 20 ár. Aðgerðin á sér lengri forsögu og þess má geta að augnlæknar hafa verið að reyna að móta hornhimnuna í meira en hálfa öld.

Kostir Lasik aðgerðar

Helstu kostir hennar umfram aðrar laseraugnaðgerðir eru:

  • Lítil óþægindi í auganu eftir aðgerð.
  • Sárið grær fljótt.
  • Sjónin er orðin tiltölulega skörp eftir nokkrar klst. eða daga.
  • Þörf er á færri eftirskoðunum.
  • Sjónskerpan er orðin varanleg eftir nokkrar vikur.

Fylgikvillar geta komið upp í aðgerðinni og í kjölfar þeirra vandamál sem gera aðra aðgerð nauðsynlega. Þetta gerist þó sjaldan og hefur sjaldan í för með sér varanlega sjónskerðingu. Einnig getur í ákveðnum tilvikum verið þörf á endurmeðferð til að ná settu marki.

Við aðgerðina er notaður sérstakur hefilhnífur sem sker nákvæmlega 120 eða 140 míkron djúpt í hornhimnuna þannig að til verður hornhimnuflipi (eða lok), sem síðan er lyft og lagður til hliðar á meðan laseraðgerðin á dýpri lögum hornhimnunnar er gerð. Hversu mikinn vef þarf að fjarlægja er einstaklingsbundið og er reiknað nákvæmlega út frá upplýsingum sem fást við forskoðun og skráðar eru í stýritölvu lasertækisins. Að þessu loknu er flipinn lagður á sinn stað og eftir nokkrar mínútur hefur hann "límst" aftur svo hægt er að depla auganu eðlilega. Verkir eru litlir sem engir og augað grær hratt. Flipinn grær síðan fastur á köntunum og því er lítil hætta á örmyndun og sjónin verður fljótt eins skörp og hún getur orðið. Sumir bæta við sig línu í sjónskerpu og um 10% missa eina línu í bestu sjónskerpu. Ef þörf yrði á frekari leiðréttingu er það tæknilega auðvelt því ekki þarf að skera nýjan flipa.

Við aðgerðina, ef um nærsýni er að ræða, er fjarlægður hlutfallslega meiri vefur miðlægt úr hornhimnunni en utarlega. Lögun hennar breytist og hún verður flatari. Ljósbrotið minnkar, geislarnir mætast í sjónhimnunni og sjónin verður skörp. Þvermál laseraðgerðarinnar er takmarkað og þar með "optíska" svæðið. Venjulega er meðferðin 6,5 - 7,5 mm í þvermál og utan þess er hornhimnan lítið breytt. Þetta getur stundum valdið óþægindum í myrkri. Einkum þeir sem að eðlisfari hafa stór sjáöldur geta fengið glýju í augun í mótbirtu. Ljósin dreifast og fá um sig geislabaug. Sumum finnst þetta óþægilegt, sérstaklega við akstur í myrkri. Við forskoðunina er sjáaldursstærðin metin nákvæmlega og þeim sem eiga þetta á hættu er ráðið frá aðgerð.

Lasek / PRK aðgerð.

LASEK aðgerð er afbrigði af LASIK aðgerðinni sem gerð er ef hornhimnan er of þunn til að hægt sé að skera flipa, eins og gert er í LASIK. Losað er um efsta frumulag hornhimnunnar (yfirborðsþekjan) og síðan er fjarlægður vefur af miðlaginu með lasergeislum. Hve mikinn vef þarf að fjarlægja er einstaklingsbundið og er það reiknað út frá þeim upplýsingum sem fengust við forskoðunina og skráðar eru í stýritölvu lasertækisins sem reiknar það síðan nákvæmlega. Aðgerðin tekur alls um 20 mínútur en laserskurðurinn sjálfur þar af innan við mínútu. Efsta frumulagið er síðan breitt yfir augað. Eftir aðgerðina er sett snertilinsa á augað, eins konar plástur, sem ver sárið á hornhimnunni og dregur úr óþægindum. Linsan er oftast fjarlægð tveimur til þremur dögum eftir aðgerð. Aðgerðin skilur eftir sig sár á yfirborði hornhimnunnar sem grær á nokkrum dögum.augnþrýstingurinn hækkað.

Sérsniðnar aðgerðir

Þegar LaserSjón tók til starfa árið 2000 var eingöngu um að ræða eina tegund hugbúnaðar við aðgerðir, Planoscann. Þá var laserinn stilltur með mælingu viðkomandi auga líkt og að um gleraugna recept væri að ræða. Öll augu voru þá meðhöndluð eins og einungis var hægt að taka tillit til ljósopstærðar í aðgerðunum. Við vitum öll að heimurinn er ekki 'one size fits all' og þessar aðgerðir hafa ekki verið okkar fyrsti valkostur í áraraðir.

Helstu framfarir sjónlagsaðgerða síðastliðin ár liggja í bættum hugbúnaði. LaserSjón hefur alltaf haft það að markmiði að bjóða upp á bestu og nýjustu meðferð. Við fórum því fljótlega að bjóða svokallaðar Zyoptix aðgerðir en það eru aðgerðir sem sniðnar eru að hverju einstöku auga og taka tillit til fleiri atriða en bara ljósopsstærðar.

Lögð er áhersla á stærð aðgerðar með Zyoptix Tissue Saving þar sem hugbúnaður skráir lögun augans og skilar hámarksleiðréttingu með lágmarks umfangi aðgerðar. Minni aðgerð eykur öryggi, einkum ef hornhimnur eru þunnar. Með því að skrá lögun augans í hugbúnaðinn dregur það úr ljósbaugum og glýju sem bætir þannig gæði aðgerðarinnar.

Annar hugbúnaður nefnist Zyoptix Aspheric. Áhersla er þá lögð á að halda upprunalegri lögun yfirborðs augans og með því eru áhrif aðgerðarinnar á starfsemi augans í mismunandi birtuskilyrðum takmörkuð og hefur reynst okkur vel.

Það sem við notum mest er Zyoptics Personalized. Sá hugbúnaður býr til sérsniðna mynd af því hvernig hvert auga fókuserar myndina (wavefront). (Þá erum við erum komin langt frá "ein stærð á alla" hugmyndinni). Þá eru engar stærðir gefnar heldur er hvert auga mælt sérstaklega. Greiningin er svo nákvæm að helsti vandinn er að koma henni til skila. Hvernig á að prógrammera laserinn til að fá þessa sérlega nákvæmu mynd til að falla á sinn rétta stað ? Til þess að koma þessari greiningu til skila tökum við mynd af lithimnu augans, en hún er eins og fingraför okkar, hver lithimna er einstök. Laserinn þekkir myndina af lithimnunni og læsir ofan í mynstur hennar. Með þessari viðmiðun kemst leiðréttingin á réttan stað (iris guided wavefront). Þetta prógramm gefur einnig góðan fyrirsjáanleika, þ.e. hversu oft fæst áætluð leiðrétting. Þessi hugbúnaður hefur hvað mest breytt laseraðgerðum og útkomu þeirra þau átta ár sem að við höfum starfað. LaserSjón hefur verið í fararbroddi á Norðurlöndunum við að taka þennan nýja hugbúnað í notkun. Farsæl notkun hans byggir á áralangri reynslu okkar og enginn hugbúnaður getur komið í stað reynslunnar.