GBP = 156 ISK
 
 

Sjónlagsaðgerðir með Lasertækni

Eiríkur Þorgeirsson og Þórður Sverrisson, sérfræðingar í augnlækningum.

Sjónlagsaðgerðir með lasertækni hafa tekið miklum framförum á síðustu árum. Bættur vélbúnaður og hugbúnaður gerir flying spot lasera, sem nú eru staðalbúnaður, öruggari og þægilegri í meðförum en áður.

Alltaf eru einhverjar hreyfingar á auganu, og algengt áhyggjuefni þeirra sem hyggjast ganga undir aðgerð er að þeir standi sig ekki nægjanlega vel í að halda auganu kyrru. Með þróun eltikerfa (eye tracker) er miðunargeilsa læst á miðju ljósopsins, og myndavél sem tekur 120 myndir á sek. samræmir hreyfingu augans og lasersins og tryggir að laserorkan lendi á tilætluðum stað. Hönnuð hafa verið háþróuð eltikerfi, sem gæta þess að hið einstaklingsbundna orkusnið, sem búið er að forrita inn í lasertækið, fyrir hverja meðferð fyrir sérhvert auga, skili sér nákvæmlega á réttan punkt á yfirborði augans, þrátt fyrir minniháttar ósjálfráðar hreyfingar augans á meðan á aðgerðinni stendur. Þessi eltibúnaður er þróaður með sambærilegri tækni og beitt er við þróun eltikerfa í nútíma hernaði. Skotmarkið kemst ekki undan þegar búið er að læsa leysigeislanum á það. Eltikerfið og háþróuð tölvutækni sér til þess að leiðréttingar vegna ósjálfráða augnhreyfinga eru gerðar 120 sinnum á sekúndu.

Allsráðandi á markaðnum nú eru fljúgandi depils laserar. Þar kemur orkan úr lasernum í formi punkts sem er 1-2mm að stærð, og "hleypur" yfir meðferðarsvæðið. Þetta tryggir betur en fyrri tegundir lasera að æskilegur árangur náist. Hvert skot veldur breytingu á lögun augans um minna en einn þúsundasta úr mm (minna en 1 my.). Að meðaltali eiga sér stað í hverri aðgerð á bilinu 2000 til 4000 skot. Samanlögð áhrif meðferðarinnar leiðréttir nærsýni, fjarsýni og sjónskekkju augans. Meðferðin sjálf tekur 30 til 60 sekúndur.

Helstu nýjungarnar nú liggja í klæðskerasniðnum meðferðum sem miða að leiðréttingu augans umfram það sem gleraugu og linsur fá við ráðið . Vel heppnuð slík meðferð gæti bætt sjónskerpu umfram það sem menn sjá best í dag, bætt meðalárangur meðferðarinnar til muna og dregið úr hverskyns truflun, sem sumir upplifa með staðlaðri lasermeðferð, svo sem glæringar út frá ljósum, rökkursjón o fl.

Þessi nýja tækni, byggir á nýrri mælitækni og skráningu á bjögun augans. Hún er þróuð í Evrópu. Enn eru þó einvörðungu 10% laserstöðva í Evrópu, sem geta boðið upp á þessa tækni og fyrstu stöðvarnar í Norður Ameríku eru í þann mund að hefja starfsemi á þessu sviði.

Þess má geta að fyrirtækið LaserSjón hefur verið þátttakandi í þessari þróun frá upphafi og getað boðið upp á þessa aðferð í tæp frimm ár og þannig verið í fremstu röð fyrirtækja á þessu sviði.

Í nýrri rannsókn á 340 nærsýnum augum með tækjabúnaði frá Bausch og Lomb Zyoptic System, (nákvæmlega sami tækjabúnaður og LaserSjón notar á Íslandi) kemur í ljós hinn ótrúlegi árangur að 91.5% sáu 100% eða meira (6/6) án sjónhjálpartækja eftir aðgerð og það sem meira er, 70% sáu 125% eða meira (6/5). Með öðrum orðum sáu þeir betur en full sjónskerpa er skilgreind. Auk þess voru gæði sjónarinnar aukin umfram það sem áður var, t.d. svokölluð grátónasjón og rökkursjón.

Í næstu grein munum við fjalla nánar um einstaklingssniðna lasermeðferð, sem byggir á fyrrgreindri mælitækni, "wavefront" og greinir á nýjan máta - "higher order aberation". Þessi nýja aðferð, til að skoða og meta augað og ljósbrot þess, gefur tækifæri sem ekki buðust áður.

Það vill þó gilda um þetta eins og annað að það hentar ekki öllum, en með nákvæmri forskoðun má greina þá sem hafa verulegan ávinning af þessari nýjustu tækni frá hinum. Þá er m.a. metið hversu mikil áhrif fyrrgreind sjónbjögun (higher order aberation) hefur á sjónskerpu og sjóngæði meðal annars rökkursjón og grátónasjón (contrastsensitivity). Aðferðina má einnig nota til þess að leysa vandamál, sem upp geta komið eftir laseraðgerð og þannig aukið öryggi sjónlagsaðgerða enn frekar.

Með sérsniðnum lausnum fjölgar þeim einstaklingum, sem geta farið í sjónlagsaðgerð, umfram það sem önnur tækni ræður við, vegna þess að unnt er að gera minni aðgerð á hornhimnu augans, en engu að síður ná fram sömu breytingu á sjón. Nú er svo komið, með sértækum lausnum eins og LaserSjón ræður yfir, að flestir sem í dag eru háðir gleraugum eða snertilinsum geta losnað alveg við þau /þær eða að minnsta kosti orðið til muna óháðari sjónhjálpartækjum en þeir eru í dag. Um þetta vitna m.a. um eitt þúsund viðskiptavinir fyrirtækisins.