GBP = 156 ISK
 
 

Augnaðgerðir með Lasertækni

Eiríkur Þorgeirsson og Þórður Sverrrisson, sérfræðingar í augnlækningum.

Sjónlagsaðgerðir til að laga nærsýni, fjarsýni eða sjónskekkju, njóta mikilla vinsælda á Vesturlöndum og er í dag ein algengasta augnaðgerð sem gerð er. Milljónir manna hafa valið að leysa sjónvanda sinn á þennan hátt. Á Íslandi hafa þessar aðgerðir verið í boði á ellefta ár og rúmlega 12.000 manns hafa valið þennan kost hjá Lasersjón. Ástæður þess að fólk ákveður að gangast undir aðgerð eru margvíslegar. Fæstum finnst notkun gleraugna eða linsa eftirsóknaverð og því finnst fjölmörgum þessi kostur, þ.e. aðgerð freistandi.

Til þess að augnaðgerð geti orðið ein algengasta aðgerð sem gerð er þarf hún að uppfylla nokkur skilyrði:

  • Vera sársaukalítil/laus.

  • Árangursrík og áhrif komi fram nánast strax.

  • Vera örugg.

Helstu ástæður þess að fólk velur ekki sjónlagsaðgerð í stað gleraugna eru einkum tvær:

Ótti við aðgerð, bæði hugsanlegan sársauka og/eða að aðgerð takist ekki sem skyldi.

Verð. Þessar aðgerðir kosta meira en menn eru vanir að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu, enda ekki enn sem komið er um þáttöku Tryggingastofnunar Ríkisins að ræða í þessum aðgerðum nema í undantekningartilvikum.

Lasik aðgerð uppfyllir ofangreind skilyrði. Hún er óþægindalítil aðgerð og flestir eru farnir að sjá allvel eftir nokkrar klukkustundir. Endanleg niðurstaða kemur þó fram síðar. Aðgerðin hefur innan við 1% tíðni fylgikvilla, sem flestir eru viðráðanlegir með réttri meðhöndlun.Talsvert yfir 90% ná 6/6 (20/20) eða 100% sjón án gleraugna. Á hinn bóginn er það ætíð svo að þú veist hvað þú hefur en ekki hvað þú færð.

Hvað kostnaðinn varðar má benda á að aðgerðin byggir á tæknibúnaði með mikilli fjárfestingu og er verð hér á landi mjög í takt við það sem gerist og gengur í nágrannalöndum okkar.

Laseraðgerðir eru lífstílsaðgerðir sem breyta lífi fólks frá morgni til kvölds.

Algengar ástæður þess að fólk velur þessa lausn er vegna atvinnu. Þar má nefna sjómenn, lögreglumenn, iðnaðarmenn og aðra sem vinna utandyra, auk fjölda annara stétta s.s listamenn, læknar, skrifstofufólk osfrv. Einnig velja margir þessa lausn vegna tómstunda og áhugamála s.s. skotveiða, útivistar, skíðamennsku, sunds ofl.

Margir telja þetta kosmetiska aðgerð (fegrunaraðgerð) en eingöngu 15-18% fólks gefur upp útlitsbreytingu sem verulega þátt í endanlegri ákvarðantöku.

Þessar aðgerðir eru komnar til að vera og er nú þegar litið á þær sem eðlilegan valkost. Þær eru varanlegar og geta leyst sjónvanda flestra með þeirri tækni sem nú er í boði.

Komin er fram ný tækni við þessar aðgerðir, svokölluð "wavefront" stýrð tækni og hefur Lasersjón þegar tekið þessa tækni í notkun. Þetta er ný aðferð, sem gefur enn betri árangur í mörgum tilfellum. Hún dregur úr umfangi aðgerðarinnar (allt að 15 til 20%), sem er mikilvægt þegar hornhimna er þunn og gerir kleift að leysa vanda sífellt fleiri. Það sem er meira um vert er að þessi aðferð dregur úr aukaverkunum sem eru þekktar eftir lasik aðgerð. Rökkursjón verður betri og sama gildir um grátónaskerpu. Þessi lausn, sem byggir á sértækri lausn fyrir hvern einstakling gengur erlendis undir nafninu Customized ablation treatment (Zywave, Zyoptics).

Með þessari tækni er unnt, með nákvæmum rannsóknum, að ganga úr skugga um hvaða augu myndu koma betur út með hinni nýju aðferð borið samanvið eldri meðferðina, sem annars er notuð. Stundum er óverulegur munur og þá er ekki mælt sérstaklega með annari aðferðinni fram yfir hina.

Aðrar sértækar lausnir eru einnig til.

Þessi tækni - LASEK til aðgreiningar frá LASIK - hentar einkum þegar hornhimnuþykktin er í þynnra lagi í hlutfalli við stærð fyrirhugaðrar meðferðar.

Í hátækni af þeim toga sem hér er um að ræða er að sjálfsögðu grundvallaratriði að bjóða hverju sinni upp á það allra besta sem þekkist í þessum fræðum. Framfarir eru mjög örar og alltaf glittir undir glænýjar aðferðir og bót á því sem fyrir er

Allir verða aldursfjarsýnir upp úr fertugsaldri, en unnt er að gera fólk óháðara gleraugum en ella með aðgerð sem byggir á þeirri tækni sem hér hefur verið lýst.

Í nýútkominni grein er rætt um laseraðgerðir á augum til að meðhöndla tileygð börn og losa þau við að þurfa að láta gleraugu lita æsku sína. Einhver tími mun líða þangað til þetta verður viðurkennd meðferð, en ef af verður er það stórkostlegt. Þannig munu laseraðgerðir henta enn fleirum og verða eðlilegur valkostur í náinni framtíð fyrir börn sem fullorðna.

Að lokum: Við verðum varir við að margir telja að Lasik aðgerðir séu eingöngu góður kostur fyrir fólk með mikla sjónlagsgalla. Svo er ekki. Fólk með lítinn og meðalstóran galla eru oft bestu kandidatarnir til þess að fara í aðgerð. Hins vegar er skiljanlegt að fólk með alstærstu sjónlagsgallana sæki fastast í að fá bót meina sinna, en stundum eru takmörk fyrir því sem skynsamlegt er að gera. Sértækar lausnir sem nú er boðið upp á og lýst hefur verið hér að framan, auka möguleika allra til að fá bót sinna meina og verða óháðir sjónhjálpartækjum.